Kanon arkitektar ehf hafa starfað frá árinu 1994 við arkitektúr og skipulag. Fyrirtækið var stofnað af arkitektunum Halldóru Bragadóttur, Helga B. Thóroddsen og Þórði Steingrímssyni, sem jafnframt eru eigendur. Þorkell Magnússon arkitekt bættist síðar í eigendahóp. Framkvæmdastjóri er Halldóra Bragadóttir.
Fyrirtækið veitir opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum arkitekta-, skipulags- og landslagsráðgjöf og þjónustu. Hjá Kanon arkitektum starfa arkitektar og landslagsarkitekt, samstillt sjö manna teymi fagfólks með fjölbreyttan bakgrunn og víðtæka þekkingu og reynslu á sínu sviði.
Verkefnin eru við hönnun nýbygginga, skipulag á öllum stigum, innréttingar og endurbætur eldra húsnæðis, landslagshönnun, húsnæðis- og byggingarráðgjöf, byggða- og húsakönnun ásamt margvíslegum nýsköpunar- og þróunarverkefnum.
Samhliða almennri starfsemi hefur fyrirtækið tekið þátt í mörgum samkeppnum og unnið til fjölda verðlauna.
Starfsmenn hafa allir löggildingu Umhverfisráðuneytisins í samræmi við skipulags- og byggingarlög til að gera uppdrætti á sínu fagsviði og eru á lista Skipulagsstofnunar yfir skipulagsráðgjafa með tilskilin réttindi. Til að mæta áskorunum sem felast í vistvænni hönnun og skipulagi hafa starfsmenn fyrirtækisins sótt ECOBOX námskeið Norska arkitektafélagsins, NAL.
Kanon arkitektar eru félagar í SAMARK, samtökum arkitektastofa. Starfsmenn fyrirtækisins eru félagar í Arkitektafélagi Íslands AÍ og Félagi íslenskra landslagsarkitekta FÍLA.
Gæðakerfi
Kanon arkitektar vinna í samræmi við gæðakerfi samkvæmt ISO-9001:2015 staðlinum.
Stefna Kanon arkitekta
Kanon arkitektar leggja áherslu á vönduð og traust vinnubrögð.
Markmið fyrirtækisins er að vinna að góðri byggingarlist og skipulagi.
Í stefnu fyrirtækisins kemur fram að:
· Að í starfsemi fyrirtækisins sé góð byggingarlist höfð að leiðarljósi, þar sem fagurfræði og notagildi fara saman og hugkvæmni beitt til að ná sem bestri úrlausn verkefna.
· Að þjónusta Kanon arkitekta uppfylli sem best væntingar viðskiptavina.
· Að huga að sjónarmiðum notenda.
· Að lausnir séu í samræmi við eðli verkefnisins.
· Að innra umhverfi fyrirtækisins sé gott og stuðli að samheldni ánægju og þátttöku starfsmanna í framkvæmd gæðastefnu fyrirtækisins.
· Að fara að kröfum og bæta stöðugt virkni gæðastjórnunarkerfisins.
· Að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi og neikvæðum umhverfisáhrifum haldið í lágmarki.
Kanon:
Af grískum uppruna;
Mælikvarði, regla. Í myndlist felur kanon í sér reglur um fullkomin hlutföll mannslíkamans.
Gríski myndhöggvarinn Polykleitos (u.þ.b.400 f. Kr.) gerði grein fyrir þessum reglum í ritinu Kanon og í bronsstyttunni Doryphoros (Spjótkastarinn).
Í reglum Polykleitosar, kanon, er gullinsnið fyrst sett fram.