Rómantík og heilsuspillandi húsnæði

Endurnýjun húsnæðis, niðurrif og uppbygging á sama stað hefur verið vannýttur kostur í uppbyggingu miðbæjar Reykjavíkur.

Rómantík og heilsuspillandi húsnæði

Á Íslandi hafa stórar hugmyndir um niðurrif alltaf verið stöðvaðar. Þannig hefur oft á tíðum menningarverðmætum verið bjargað. En á að varðveita allt? Þó að hús séu gömul mega þau ekki vera ósnertanleg. Endurnýjun húsnæðis, niðurrif og uppbygging á sama stað hefur verið vannýttur kostur í uppbyggingu miðbæjar Reykjavíkur. Sé litið til baka hafa hugmyndir um niðurrif og varðveislu tekið miklum breytingum.
Í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. gekk mikil alda um að eyða heilsuspillandi húsnæði í þéttbýlum borgum Evrópu. Ástæðan var að borgirnar voru uppfullar af íbúðum þar sem sólin aldrei skein, sóttkveikjum sem stóðust ekki kröfur um mannsæmandi líf. Guðmundur Hannesson, læknir var boðberi hugmynda um heilsuvænt húsnæði á Íslandi en þær leiddu ekki til mikils niðurrifs enda vandamálið ekki sama eðlis hér, nægjanlegt landrými og ungir þéttbýlisstaðir. Hugmyndir um heilsuvænt húsnæði endurspegluðust hér fyrst og fremst í skipulagi og gerð nýrra húsa.

Um miðbik síðustu aldar, eftir seinni heimstyrjöldina, átti að kasta öllu gömlu, endurnýja borgirnar. Þessi bylgja náði seint og um síðir til Íslands. Húsafriðun kom hér strax sem mótspyrna enda stóð til að eyða mörgum merkilegum húsum. Nú hafa hugmyndir húsafriðunar náð fullmikilli fótfestu hér á landi. Engu má eyða, ekki einu sinni verstu heilsuspillandi kofaskriflunum. “Þetta má gera upp og gera úr þessu skemmtilegar íbúðir” er viðkvæðið þegar rætt er um verstu dæmin.

Og fólk fellur inn í draum um ullarteppi og rauðvín fyrir framan arinn í “gömlu húsi”.
Vissulega eru mörg hús í miðborg Reykjavíkur þess virði að þau séu gerð upp, en það eru jafnmörg ef ekki fleiri sem mega fara. Illa farið með fé við endurgerð húsa sem hvorki hafa menningarlegt né fagurfræðilegt gildi. Fénu væri betur varið í að reisa ný, hagkvæm og betri hús sem uppfylla nútíma kröfur.

En þá kemur að þessari tuggu sem oft er farið með en ekkert gert með: þéttingu byggðar. Af fasteignarverði að dæma er mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í og við miðbæinn. Flugvallarsvæðið er stikkfrí um sinn þannig að það er ekki um mörg ný svæði að ræða. Miðbærinn og nágrenni hans er allur fullur af illa nýttum lóðum með kofum og heilsuspillandi húsnæði sem mætti fara. Á þessum lóðum mætti reisa nútímaleg borgarhús sem vantar sárlega í fasteignaflóruna og gefa fleirum kost á að búa í miðbænum.

Helgi Bollason Thóroddsen, arkitekt