Borgarskipulag, Laugavegur og Listaháskóli

Nýbyggingar okkar eru arfleifð framtíðar. Bæjarrými Laugavegar er ekki byggðarsafn ákveðins tímaskeiðs, heldur lifandi umgjörð mannlífs hversdagsins.

Borgarskipulag, Laugavegur og Listaháskóli

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2008.

Helga Bragadóttir skrifar um kosti þess að Listaháskóli verði staðsettur við Laugaveg.

 

Reykvíkingum og landsmönnum öllum er annt um miðborg Reykjavíkur og vilja veg hennar sem mestan. Umræða um stöðu hennar og framtíð hefur aukist, nú síðast um samgönguhætti í borginni, Laugaveginn og tillögu að nýbyggingu Listaháskóla Íslands þar.

 

Borgarskipulag

Með hugmyndafræði fyrsta aðalskipulags Reykjavíkur á sjöunda áratug síðustu aldar hófst borgarþróun sem leiddi af sér dreifða byggð, samtengda umferðaræðum. Dregið var úr blandaðri landnotkun og íbúðarhverfi, atvinnusvæði og verslunar – og þjónustusvæði voru aðskilin. Staðsetning nýs miðbæjar var ákveðin í Kringlumýri, í töluverðri fjarlægð frá Kvosinni og upprunalega miðbænum. Úthverfin byggðust, atvinnuhættir breyttust og einkabílaeign varð almenn.
Nú er svo komið að samgöngumannvirki þekja um 50% borgarlandsins, bílaeign er ein sú mesta í heiminum, um 700 bílar á hverja 1000 íbúa, en aðeins um 5% íbúa nota almenningssamgöngur. Á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá opnun Kringlunnar og fleiri stórra verslunarmiðstöðva hefur miðbærinn átt í vök að verjast og dregið hefur úr íbúðahverfisþjónustu. Íbúar og starfsemi hefur flust úr miðbænum og ríkt ákveðin stöðnun þar allt frá áttunda áratug síðustu aldar.
Síðasta áratug hefur verið unnið að því að sporna við þessari þróun, enda krafan um breytingu á slíku borgarskipulagi hávær, þar sem gallar þess með mengun, félagslegri einangrun, tímasóun og hreyfingarleysi fólks hafa litið dagsins ljós. Land Reykjavíkur er ekki ótakmarkað þótt hér ríki engin landnauð. Með auknum þéttleika byggðar og nýtingu núverandi grunnkerfa borgarinnar aukast hagkvæmni og lífsgæði þar sem borgarbúar eiga þess frekar kost að sækja dagleg störf og þjónustu án þess að ferðast akandi um langan veg, en verða þess í stað í göngufæri, þar sem hinn mannlegi kvarði fær notið sín. Fleiri setjast að í miðborginni og bakland verslunar, þjónustu og menningar styrkist.
Liður í endurreisn miðborgarinnar er að skilgreina uppbyggingarmöguleika og tryggja verndun sögulegrar arfleifðar okkar og byggingararfs til mótunar bæjarumhverfis sem leiðir af sér fjölþætta þjónustu og fjölskrúðugt mannlíf.

 

Laugavegur

Laugavegurinn á það sammerkt með nafntoguðum miðborgargötum að státa af margbreyttri byggingarlist, starfsemi og mannlífi.
Fram á áttunda áratug síðustu aldar var Laugavegurinn, þessi aðalæð inn og út úr bænum, í stöðugri uppbyggingu og aðlögun til að halda aðdráttarafli sínu og styrk sem aðalverslunargata Reykjavíkur í samræmi við kröfur samtímans hverju sinni. Þróun byggðar og breytinga sem alúð og fagmennska var lögð í var fagnað. Sérstaða og aðalsmerki Laugavegar varð til, þar sem lesa má sögu þéttbýlismyndunar frá fyrstu tugum 19. aldar, með byggingum frá ýmsum tímum sem móta byggðina í fjölbreytilegu borgarumhverfi. Byggingarnar eru vitnisburður um samtíð sína, þar sem ákveðnar forsendur bjuggu að baki notkun, byggingaraðferð og stílgerð – án eftiröpunar, en með virðingu fyrir byggingarhefð hvers tíma. Einnar til fimm hæða hús svo sem timburhús með verslun á jarðhæð, reisuleg steinhús samkvæmt fyrsta heildarskipulagi þriðja áratugar síðustu aldar og hið vel hannaða hús Máls og menningar í anda móderisma millistríðsáranna risu.
Löng gata sem Laugavegurinn þarfnast aðdráttarafls svo starfsemi og mannlíf dafni. Þróunaráætlun miðborgarinnar kvað á um að ætíð skildi kanna hvort finna mætti fyrirhuguðum nýbyggingum sem auðguðu borgarlífið stað í miðbænum. Í nýlegu deiliskipulagi við Laugaveg, sem unnið var á grundvelli húsakönnunar og varðveislumats, er leyft mismikið byggingarmagn á götureitum eftir því sem eldri byggð og aðstæður gefa tilefni til. Svo veita megi sólargeislum inn í göturýmið eru almennt meiri uppbyggingarmöguleikar við norðanverða götuna en sunnanverða.

 

Listaháskóli

Það er fagnaðarefni að fá fjölmennan vinnustað á Laugaveginn sem hleypir lífi í miðborgina. Á götureit við miðbik Laugavegar að Frakkastíg, þar sem Ullarverksmiðjan Framtíðin stóð áður og Hverfisgötu, borgargötu sem er að vakna til lífs á ný með uppbyggingu í kring. Um Hverfisgötu, að Tryggvagötu, má skilgreina menningarás með nokkrum helstu menningarbyggingum þjóðarinnar, Þjóðleikhúsi, Þjóðmenningarhúsi, Listasafni Reykjavíkur og Borgarbókasafni, ásamt Tónlistar-og ráðstefnuhúsinu, einum aflvaka miðborgarinnar.
Nýr Listaháskóli Íslands á Laugavegi er happafengur. Lífið sem fylgir nemendum og starfsemi listaháskóla mun færa umhverfinu öllu jákvæðan brag. Miðstöð skólans verður opin almenningi og miðlar til borgarsamfélagsins.
Nýbyggingar okkar eru arfleifð framtíðarinnar. Bæjarrými Laugarvegar er ekki byggðarsafn ákveðins tímaskeiðs sem laðar að ferðamenn heldur lifandi umgjörð mannlífs hversdagsins. Laugavegurinn ber æskilegar umbætur og uppbyggingu án þess að tapa sögulegu gildi sínu þar sem vel hannaðar nýbyggingar og umhverfismótun helst í hendur við varðveislu eldri byggingarlistar og eflingu nýrrar.
Listaháskóli við Laugaveg mun eiga drjúgan þátt í að auka vöxt og viðgang miðborgarinnar og gott borgarskipulag í Reykjavík.

 

Höfundur er arkitekt og fyrrverandi skipulagsfulltrúi Reykjavíkur