Bærinn og húsið

Borgum og bæjum má líkja við lifandi fyrirbæri. Þeir eru fljótir aðlaga sig að þörfum hvers tíma.

Bærinn og húsið

Kaupstaðurinn Sauðárkrókur liggur á fallegum stað undir brekkum Tindastóls. Þegar komið er á staðinn er bæjarstæðið er á einhvern hátt sjálfsagt, eins og það hafi alltaf staðið þarna bær. Krókurinn liggur vel við sveitunum í kring, hann er hentugur til sjósókna og þaðan er stutt út í Drangey til fuglatekju. Það er því ótrúlegt að það hafi ekki verið fyrr en árið 1871 sem fyrsta húsið var reist, sem hleypti skriðunni af stað. Fyrr en varði var kominn lítill bær. Keimlík ein- og tvílyft timburhús röðuðu sér eftir aðalgötunni eins og í bæjum villta vestursins. Þetta var í fyrstu gisin byggð stakstæðra húsa þar sem flestir íbúarnir stunduðu búskap í bakgörðunum með sínum aðalstörfum.

 

Forsenda góðs bæjar- og borgarumhverfis er reynsla og staðarþekking. Íbúarnir læra smámsaman á umhverfið, hvernig best er að byggja og nýta staðinn. Þekkingin um staðinn fer frá kynslóð til kynslóðar og verður með tímanum að sjálfsögðum hlut.
Þegar íbúunum bæjarins fjölgaði breyttist bærinn í byggð, þar sem húsin stóðu þéttar saman, studdu hvert annað. Stefnur gatna og lag húsa tóku mið að aðstæðum, veðurlagi og sólaráttum. Húsin veittu ekki einungis skjól fyrir veðri og vindum innandyra heldur höfðu þau einnig góð áhrif utandyra. Þannig urðu til götur og torg sem gott var að ferðast um, staldra við og ræða málin.
Árið 1901 bætist Læknishúsið í hópinn á stórri lóð í jaðri byggðarinnar, undir Kirkjuklaufinni í suðurenda bæjarins þar sem Sauðáin tók á sig krók og beygði til sjávar. Húsið var teiknað og byggt af Steindóri Jónssyni húsasmiði fyrir Sigurð Pálsson, héraðslækni. Það var vel byggt, reisulegt og vel viðað. Það sem einkenndi það voru tveir jafnréttháir inngangar. Í suðaustur endanum var gengið inn í íbúðarhlutann og norðvestur enda í lyfjabúð og læknastofu. Lóðin breyttist fljótt í fallegan garð sem setti svip á bæinn enda lengi vel eini skrúðgarðurinn í plássinu.
Torg verða yfirleitt til við krossgötur og við hús eru sem skera sig úr heildinni eins og t.d. kirkjur. Torg er rými sem afmarkast yfirleitt af húsum og er einskonar samkomustaður undir berum himmni.
Byggðin blés út og allt í einu var Læknishúsið orðið miðpunktur bæjarins. Hér greindist aðalgatan í tvennt og bærinn skiptist í Innkrók og Útkrók. Læknishúsið stóð við aðaltorg bæjarins ásamt kirkjunni, spítalanum, barnaskólanum, Sauðánni og Læknisbrúnni. Kringum lóð hússins voru reistir skúrar og steyptir lóðaveggir sem afmörkuðu lóðina gagnvart torginu.
Fólk staldraði við á torginu, spjallaði saman. Skólakrakkar ærsluðust þarna í frímínutum og sjómenn söfnuðust saman undir kirkjuhorninu í gæftarleysi. Á torginu mátti sjá fólk á öllum aldri að leik, í boltaleikjum á sumrin og á skautum á ísilagðri Sauðánni fyrir neðan torgið á vetrum. Á torginu voru haldnar fjöldasamkomur, 17.júní haldinn hátíðlegur, kröfufundir og predikarar þrumuðu þar yfir bæjarbúum.
Borgum og bæjum má líkja við lifandi fyrirbæri. Þeir eru fljótir aðlaga sig að þörfum hvers tíma.
Með bættum efnahag komu nýir lífshættir á Krókinn. Bílar og sérbýli urðu tímanna tákn sem kallaði á breytingu á umhverfinu. Ný hverfi risu með ógnarhraða. Ofuráhersala var lögð á að leysa fljótt tæknileg vandamál með stöðluðum lausnum. En mikilvæg atriði gleymdust: Að götur eru ekki einungis umferðarleiðir heldur jafnframt rými milli húsa, rammi utanum mannlífið. Einnig að hvert nýtt hús er hlekkur í keðju bæjarins. Miðbærinn breyttist. Kirkjutorgið er óþekkjanlegt. Læknishúsið er farið þaðan og Sauðáin líka. Í stað þeirra hafa verið reist ný hús sem hafa breytt umhverfinu mikið. Þegar horft er til baka virðist staðarþekkingin ekki hafa verið notuð við uppbygginguna sem skyldi. Torgið hefur tapað sínu fyrra vægi í bænum. Allt þetta skrítna og skemmtilega sem gaf torginu svip er horfið. Verst er þó húsið sem kom í stað Læknishússins snýr ekki að torginu heldur frá því.
Það hefur lengi tíðkast að flytja hús úr stað á Íslandi jafnvel milli landshluta. Það hefur heppnast misjafnlega. Hús eru reist fyrir ákveðna lóð, það er því ekki sjálfgefið að það henti nýjum stað. En í þessu tilviki heppnaðist flutningurinn vel, Læknishúsið sómir sér vel undir Nöfunum, það er í miðbænum en þó í jaðri byggðarinnar eins og það var í upphafi.

Helgi Bollason Thóroddsen, arkitekt