Að byggja sér fortíð

Reykjavík er ung borg og þarf að hafa svigrúm til að þroskast, einnig miðborgin. Við þurfum ekki að hræðast samtímann.

Að byggja sér fortíð

Greinin birtist í Fréttatímanum 13.janúar 2012

 

Skipulagsmál miðborgar Reykjavíkur

Skipulags- og umhverfismál miðborgar Reykjavíkur komast inn á milli í hámæli. Fjölmiðlar landsins loga þá stafna á milli í tilfinningaríkum umræðum um verndunarmál miðborgarinnar. Verndunarsinnar takast á við uppbyggingarsinna. Einstök hús eru til umjöllunar, hvort þau eigi að standa eða víkja fyrir nýrri uppbyggingu. Undanfarið hefur verið nokkuð hlé á þessari umræðu enda framkvæmdagleði þessa daganna í lágmarki. Nú er því lag til að skoða skipulagsmál miðborginnar út frá fleiri sjónarhornum. Verndunarmál og uppbygging einstakra lóða er aðeins hluti af mun stærra máli. Ýmsum gundvallarspurningum um miðbæinn þarf að svara áður en lengra er haldið. Hver á staða miðborgarinnar að vera gagnvart höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu? Hvernig miðborg viljum við eiga? Viljum við safn eða lifandi miðbæ? Viljum við leiktjöld eða raunveruleg hús. Eiga Reykvíkingar að lifa lífinu í úthverfum og heimsækja aðeins miðbæinn til spari, knæpurnar á föstudags- og laugardagskvöldum og á sunnudögum fara með fjölskyldunni til að sjá hvernig fólk lifði áður fyrr. Miðbærinn verði þannig fyrst og fremst safn um fyrri tíð sem aðlagaður er að þörfum erlendra ferðamanna. Eða viljum við eiga lifandi miðborg þar sem fólk býr og starfar með fjölbreyttri starfsemi sem höfðar til alla aldurshópa, borgarbúa, landsmanna og ferðamanna.

Laugarvegur-4-6-fyrir

Laugavegur 4-6 fyrir beytingu. Mynd, Fréttatíminn.

 

Laugarvegur-4-6-eftir

Búið er að breyta húsunum við Laugaveg 4-6 aftur til upprunalegs horfs. Er þetta rétta leiðin? Mynd, Fréttatíminn.

 

Borgarbyggð

Saga borga er löng. Þegar sérhæfing starfa kom til sögunnar kom þéttbýlið í kjölfarið. Elstu borgir eiga sér árþúsunda langa sögu. Í þéttbýlinu þróaðist siðmenningin. Hugmyndir gengu hraðar á milli manna. Máttur samvinnunar uppgvötaðist og það lærðist að taka þurfti tillit til næsta manns. Borg má líkja við lifandi vef sem tekur hægfara breytingum í tímans rás. Byggð borgarinnar aðlagast nýjum þörfum, starfsemi og hugmyndum hvers tíma. Hver kynslóð setur sín spor í borgarmyndina sem eru misstór og sýnileg eftir efnum og ríkjandi hugmyndum hvers tíma. Borg sem tekur engum breytingum er ekki borg, hún er safn. Þegar við berum Reykjavík saman við aðrar borgir gleymist oft hvað Reykjavík er ung borg. Hún breyttist úr þyrpingu nokkurra húsa í litla borg á rúmum 100 árum. Samanburður við aðrar eldri borgir er því oft erfiður. Eldri borgir státa yfirleitt af stórum gömlum miðbæjarsvæðum með þéttri borgarbyggð sem stundum er nefndur borgarmassi. Reykjavík hefur takmarkaðan borgarmassa og hlutfall hans miðað við úthverfabyggð er lágt í Reykjavík. Einkenni borgarmassans eða þeirra borgarhluta sem byggðust upp fyrir miðja síðustu öld er mikill þéttleiki og skýr bæjarrými. Húsin afmarka útirýmin; götur, torg og garða. Borgarmassinn er þéttbýll og með mjög hátt nýtingarhlutfall sem er ein af forsendunum þess að hægt sé að vera með fjölbreytta miðbæjarstarfssemi. Þéttleiki borgarinnar hefur áhrif hve mannlífið er öflugt. Í þeim borgarhlutum sem er lítill þéttleiki er yfirleitt lítið mannlíf. Mikill þéttleiki er vísir að öflugu mannlífi.

BBB-manntal-borgir

Graf 1: mannfjöldaþróun í nokkrum nágrannaborgum  

 

Þær borgir sem við horfum helst til og berum okkur saman við eiga sér langa sögu sem borgir eða stórir bæir. Um aldamótin 1900 bjuggu í Reykjavík rétt rúmlega 6.000 íbúar en 400.000 íbúar í Kaupmannahöfn. Reykjavík er því rétt að slíta barnsskónum í þeim samanburði.

 

Að byggja sér fortíð

“Þetta er miðbærinn okkar. Svona hefði hann litið út hefðum við verið svolítið ríkari en við vorum.”

Sagan skiptir okkur öll máli. Fortíðin er okkur mikilvæg. Gamalt umhverfi veitir okkur yfirleitt vellíðan og öryggiskend. Gömul mannvirki gefa einnig umhverfinu dýpt. Hjálpa okkur jafnvel með skilning á hlutunum. Hvaðan komum við? Við þurfum því einhverja tengingu við fortíðina í kringum okkur. Hvernig var hér áður og hvernig lifðu forfeðurnir? Í gömlum hlutum eru einnig verðmæti sem oft sjást ekki fyrr en búið er að hreinsa, laga og jafnvel endurbyggja. En eitt er að skilja mikilvægi gamalla hluta og sögunnar og hitt er að gleyma sér í fortíðinni og hundsa samtímann.

Afstaða til sögunnar er breytileg eftir tíma og aðstæðum. Þeir sem lenda í miklum raunum vilja helst gleyma því liðna og eyða öllu sem minnir á gamla tíma. Hjá þeim er vilji til að byrja upp á nýtt. Eftir heimstyrjaldirnar vildu margir eftirlifenda á stríðshrjáðum svæðum byrja frá grunni, byggja alveg nýjan heim með óbilandi trú á framtíðina. Gömlum rústum og borgarhlutum var eytt og byggð ný hverfi sem áttu ekkert skylt við það sem fyrir var. Þessar hugmyndir komu að einhverju leyti til Íslands. Gleyma ætti því liðna, gamla umhverfið væri ónýtt og byrja upp á nýtt. Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 er afsprengi þessara hugmynda. Þessar hugmyndir fengu einnig hljómgrunn hjá þeim kynslóðum á Íslandi sem ólust upp við efiðar aðstæður, skort og í lélegu húsnæði. Þessar kynslóðir áttu erfitt með að skilja að einhver verðmæti væru í gömlum húsum.

Í dag er þessu öfugt farið, fortíðarþrá er ráðandi í miðbæ Reykjavíkur. Ríkjandi afstaða til miðborgar Reykjavíkur er að gamalt sé algott og forðast eigi það sem minnir á samtímann. Það sem er framkvæmt á að minnsta kosti að líta út fyrir að vera gamalt. Gömul hús og munir þykja skapa eftirsóknarvert umhverfi en nýtt umhverfi og nýir hlutir eru að sama skapi óæskilegir.

Er í lagi að skálda fortíðina, horfa á fortíðina með okkar augum, skapa fortíðina eins og við viljum hafa hana? Fyrir hendi er tilhneiging til að fegra fortíðina, eða kannski þrá um glæsta fortíð. Það er ljóst að við getum ekki endurskapað fortíðina að fullu. Nýjar kröfur samtímans m.a. um þægindi og öryggi valda því að ekki er hægt að endurgera hús fullkomlega. En hverju má breyta frá upphaflegri gerð? Höfum við algert skáldaleyfi svo framarlega að þetta sé í gömlum stíl? En hvar liggja mörkin? Eigum við kannski að fá Disney með okkur til að klára miðbæinn?

Hvað þýðir það að vernda hús og gera þau upp? Er það alltaf sjálfgefið hvaða leið á að fara í endurbyggingunni? Íslensk hús ganga oft í gegnum miklar breytingar. Íslenski torfbærinn var lifandi. Hann krafðist stöðugs viðhalds, sífelldrar endurbyggingar vegna óstöðugra byggingarefna. Einnig var sífellt verið að breyta þeim vegna nýrra aðstæðna. Sama gilti um íslensku timburhúsin. Þau voru hækkuð, lengd, bíslög byggð og gluggum breytt. Þegar mannvirki með svo flókna byggingarsögu eru endurbyggð má spyrja: Hvernig eiga þau að líta út eftir endurgerðina? Er það sjálfgefið að þau eigi að vera eins og þau voru upprunalega þegar þau voru nýbyggð? Eða eiga þau að vera eins og sú mynd sem var lengst við líði. Eða sú gerð sem hæfir best aðstæðum okkar í dag.

Staðsetning húss kallar oft á breytingar. Stórir verslunargluggar voru settir á sínum tíma á íbúðarhús við Laugaveginn þegar gatan varð að verslunargötu. Í dag eru verslunargluggarnir samnefnari götunnar. Þeir mynda eina samfellu frá Hlemmi niður á Lækjatorg. Nú er búið að breyta húsum við Laugaveg 4-6 aftur til upprunalegs horfs og stóri “Bieringsglugginn” horfinn. Viljum við að fleiri timburhúsum við Laugaveginn verði breytt eins? Ef endurbygging gamla Landsbankans við Austurstræti stæði fyrir dyrum. Kæmi þá til greina að rífa allar viðbyggingar hússins, fjarlægja efstu hæðina eftir Guðjón Samúelsson og viðbyggingar Gunnlaugs Halldórssonar og Guðmundar K. Kristinssonar. Eftir stæði hugverk Christians Thurens, nettlegt, tvílyft hlaðið steinhús frá árinu 1899.

 

Byggðarmynstur og skipulag

Sagan einskorðast ekki við einstök hús borgarinnar. Sagan liggur líka í byggðarmynstrinu og skipulaginu. Hvernig göturnar liggja, formi húsanna, hvernig húsin tengjast götunni, göturýmum og innbyrðis samhengi borgarinnar. Mælikvarða, stærð og fínleika mannvirkjanna. Hús borgarinnar þurfa að þola nánd í götuhæð. Þau þurfa að vera þannig úr garði gerð að það sé áhugavert að eiga leið framhjá þeim.

Hvers vegna er Smárinn í Kópavogi svona ólíkur miðbæ Reykjavíkur? Starfsemin er lík. Á báðum stöðum eru íbúðir í bland við verslanir og aðra þjónustu. Mismunurinn liggur í skipulaginu, byggðarmynstrinu og samhenginu við aðra byggð. Miðbær Reykjavíkur byggðist yfir langan tíma áður en almenn bílaeign kom til sögunar með fjölbreyttum bæjarrýmum. Byggðarmynstur miðbæjar Reykjavíkur og samhengi byggðarinnar við Höfnina og Tjörnina er einstakt. Smárann má kalla “bílaskipulag” þar sem allt er hugsað og miðað út frá bílnum. Margra akreina götur, að- og fráreinar, bílastæði og önnur umferðarmannvirki yfirgnæfa allt umhverfið. Hérna vantar umgjörð um mannlífið. Allt sem einkennir gott borgarumhverfi mætir afgangi. Fá skýr bæjarrými afmörkuð eða mótuð af byggð. Fáir eru fótgangandi eða á hjóli enda mæta göngu- og hjólaleiðir afgangi.

Þegar uppbyggingaráform koma upp í miðbænum er oft spurt: hvers vegna hlífum við ekki miðbænum og byggjum annars staðar? Skipulag og byggðarmynstur miðbæjarins og tengsl hans við önnur hverfi og umhverfi borgarinnar veldur því að sjálfsagt er að byggja á því sem fyrir er og skapa enn fjölbreyttara og auðugðra mannlíf en það er nú.

 

Borgarhús

Til að geta byggt þétt er ekki hægt að nota allar húsagerðir. Stakstæð einbýlishús henta illa þar sem byggja á þétt. Klassískt borgarhús sem finnst í öllum borgum er þriggja til sjö hæða og getur staðið sem eining í randbyggð. Borgarhús hefur yfirleitt tvær hliðar, götuhlið og garðhlið. Götumegin er iðandi líf bæjarins en garðmegin er friður og skjól frá skarkala götunar. Við fjölfarnar götur er verslun eða önnur þjónustustarfssemi á jarðhæð og íbúðir á efri hæðum. Í miðborg Reykjavíkur eru mörg góð dæmi um borgarhús, sérsaklega við Laugaveginn. Ef einhver hús einkenna Laugaveginn þá eru það þessi hús.

 

Bíóborgin sem var

Miðborg eða öflugir borgarkjarnar eiga að hafa þá burði að hægt sé að sinna sínum erindum á litlu svæði. Þaðan þurfa síðan að vera góðar almenningssamgöngur í nálæg hverfi.

Hvar finnum við mannlífið á höfuðborgarsvæðinu? Hvar heldur fólkið sig? Er það í miðbænum, Kringlunni, Smáralind eða í Skeifunni? Eða er mannlífinu dreift á alla þessa staði og stór hluti fólksins í bílum að fara á milli staða í óþarfa ferðum? Er nauðsynlegt að vera í bílum þvers og kruss til að sinna erindum? Þarf ekki að stýra starfsemi borgarinnar þannig að ekki þurfi að endasendast borgarenda á milli til að sinna einföldustu erindum? Skipulagsleysi er kannski helsta skýringin á mikilli bílaeign og akstri landsmanna. Nota þarf skipulag meira til að stýra niðurröðun starfsemi í borginni til að minnka óþarfa akstur og ferðir á milli staða.

Miðborg Reykjavíkur hefur í seinni tíð smám saman orðið einhæf sem stríðir gegn eðli miðborga. Miðborgir eiga að vera með fjölbreytta starfssemi. Ýmis mikilvæg starfsemi er horfin úr miðbænum ásamt stórum vinnustöðum. Miðbærinn er einhæfari en hann var áður. Í dag einkennist miðbærinn mest af börum, hótelum, veitingastöðum og “lundabúðum”. Almennum verslunum eins og matvörubúðum hefur fækkað mikið, einnig er er minna um sérvöruverslanir sem einkenndu miðbæinn áður fyrr. Áfengisútsölum hefur einnig fækkað. Fyrir 30 árum voru tvær af þremur áfengisútsölum Reykjavíkur í miðborginni. Nú er aðeins ein áfengisútsala af sjö í miðborginni.

skyringarmyndir-sept-2011_minni

Kort 1: Kvikmyndahús í miðborg Reykjavíkur 1980

 

Reykjavík átti einu sinni bíómiðborg. Árið 1980 voru eftirtalin bíó í miðbæ Reykjavíkur: Nýja bíó, Gamla bíó, Hafnarbíó, Regnboginn, Stjörnubíó og Austurbæjarbíó. Í útjaðri miðbæjarins voru síðan Háskólabíó og Tónabíó.

skyringarmyndir-sept-2011-2_minni

Kort 2: Kvikmyndahús í miðborg Reykjavíkur 2011

Í dag er Regnboginn eina kvikmyndahúsið sem er eftir í miðbænum og Háskólabíó er í útjaðri hans. Kvikmyndahús hafa þann eiginleika að þau eru segull á mannlífið. Þau eru mikilvæg fyrir verslun og aðra þjónustu. Gestir kvikmyndahúsanna eru mikilvægir viðskiptavinir fyrir aðra þjónustu. Þeir sem sækja bíóin eru margir ómótaðir neytendur oft með mikla kaupgetu. Rekstraraðilar stóru verslunarmiðstöðvanna gera sér grein fyrir þessu og starfrækja kvikmyndahús með sinni verslunar- og þjónustustarfsemi.

Þegar verslun hvarf úr miðbænum var talið að fjölgun bílastæða myndi rétta hlut miðbæjarins á ný. En þetta hafði ekki tilætluð áhrif. Fjölbreytt verslunar- og þjónustustarfssemi á enn undir högg að sækja í miðbænum. Bílastæði virðast ekki skipta höfuðmáli. Það sem skiptir mestu máli til að auðga mannlífið í miðbænum er að skapa fallegt og heillandi umhverfi með fjölbreyttri starfsemi. Fólkið mun koma sér á staðinn þótt að það skorti bílastæði. Það mun nýta sér aðra ferðamáta, koma gangandi, á hjóli, í strætó, ferðast fleira í bíl eða leggja bílnum lengra í burtu.

 

Miðborg höfuðborgarinnar, Kvosin og nánasta umhverfi hennar, er Reykvíkingum og öllum landsmönnum hjartfólgin. Hér er Alþingi, Dómkirkjan, Hæstiréttur og aðalstjórnsýsla landsins staðsett. Hér er líka eini vísir að borg í landinu. Í miðborginni birtist um þessar mundir þrá um að eiga glæsta fortíð, byggja falleg hús í gömlum stíl. En Reykjavík er ung borg og þarf að hafa svigrúm til að þroskast, einnig miðborgin. Við þurfum ekki að hræðast samtímann. Nýtt og gamalt getur alveg átt samleið. Við þurfum að vera opin gagnvart nýjum hugmyndum í miðbænum. Það hafa sjálfsagt aldrei verið jafnmargir á Íslandi sem hafa menntun og getu til að skapa fallega og góða hluti og nú. Við þurfum að nota þessa krafta og skoða málið frá fleiri sjónarhornum en við gerum í dag.

 

Helgi B. Thóroddsen, arkitekt